Að njóta

Að njóta

Elsku þú!

Hvernig var morguninn? Gekk vel að koma öllum börnunum út í daginn og situru núna með rjúkandi kaffibollann og brosir út í eitt? Eða var morguninn frekar trylltur, allir fóru öfugu megin frammúr rúminu og þú fannst ekki neitt sem þú varst að leita að?

Ég er með frábært verkfæri fyrir þig sem hjálpar þér í gegnum morguninn og fær þig til að brosa þrátt fyrir að krakkarnir eru í sitthvorum sokknum og vaskurinn er fullur af leirtaui frá því í gær.

Það er svo einfalt og kallast að njóta (e. savoring).

Hvað felst í því?

Að njóta þýðir að við erum að hugsa meðvitað um eða gera hluti sem auka jákvæðu áhrifin af jákvæðum atburðum (Reivich og Saltzberg, 2013). Það þýðir að við reynum að finna til fulls, njóta og lengja jákvæða reynslu okkar.

Að njóta felur í sér meðal annars;

•Að hlakka til

•Njóta og varðveita augnablikið

•Rifja upp góðar stundir

Að njóta er frábær leið til að þróa langvarandi straum jákvæðra hugsana og tilfinninga og eykur um leið hamingju okkar!

Svona til að rökstyðja þetta allt saman þá komust vinirnir Bryant, Smart og King (2005) að því oftar sem maður rifjar upp jákvæða atburði, verður minningin skýrari og hefur því sterkari áhrif á hamingjuna!

Og svona til að bæta því við þá var önnur rannsókn sem sýndi að því oftar sem við gleðjumst yfir jákvæðum atburðum hversdagsins, því hamingusamari erum við (Jose, Lim og Bryant, 2012).

Þakklæti er tengt því að njóta og eykur það jákvæðar tilfinningar okkar. Ég mæli eindregið með því að gera þakklætisæfingar á hverjum degi!

Dæmi um þakklætisæfingar:

•Þakklætisbréf

•Þakklætisheimsókn

•Þrír góðir hlutir

Eigðu yndislegan dag og umfram allt skaltu NJÓTA ❤

Aukin vellíðan í móðurhlutverkinu

Aukin vellíðan í móðurhlutverkinu

Móðurhlutverkið er margslungið, það er krefjandi, skemmtilegt, erfitt, yndislegt, gefandi og fjölbreytilegt. Mæður eru oft að leita að leiðum til að geta vaxið og dafnað í móðurhlutverkinu og aðlagað uppeldið að sjálfum sér og þörfum barnsins þrátt fyrir að vera í vinnu, stunda áhugamál og eiga vini og fjölskyldu sem þarf að sinna. Á þessum hröðu tímum í nútímasamfélagi eru allskonar uppeldisaðferðir í boði og stundum getum við átt erfitt með að finna út hvaða aðferð hentar best fyrir okkur og okkar börn. Uppeldisaðferðin RIE (e. Resources for infant educators) hefur verið að slá í gegn hér á landi en hún snýst um virðingarríkt tengslauppeldi. Einnig má nefna styrkleikabyggt uppeldi (e. strength based parenting), jákvætt uppeldi (e. positive parenting) og svo mætti lengi telja. Svo er auðvitað alltaf spurningin um tímann, það eru aðeins 24 klukkustundir í sólarhringnum og við getum ekki verið allstaðar. Við finnum því stundum fyrir þeirri pressu að þurfa að vera ofurkonur á öllum vígstöðvum en það getur tekið á og þá verður hið fræga mömmusamviskubit til. Það er meira að segja til hugtakið foreldrakulnun (e. parental burnout) sem lýsir sér þannig að foreldrahlutverkið verður einstaklingnum bæði líkamlega og tilfinningalega ofviða og getur valdið efasemdum um getu til að vera gott foreldri og/eða tilfinningalegri fjarveru. Eins og oft er talað um þá þurfum við að setja á okkur súrefnisgrímuna áður en við getum aðstoðað aðra.

En hvað er hægt að gera til að ná jafnvægi og stuðla að aukinni vellíðan í móðurhlutverkinu?

Aðferðir jákvæðrar sálfræði bjóða uppá möguleika til að koma á jafnvægi, draga úr álagi og auka vellíðan á þessu sviði en meðal rannsóknarefna innan greinarinnar eru vellíðan, jákvæðar tilfinningar, hamingja, þrautseigja, sambönd, hugarfar, tilgangur og hvað fær fólk til að vaxa og dafna í lífinu. Í jákvæðri sálfræði eru rannsakaðir þeir þættir sem hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fá þá til að blómstra. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvætt viðhorf er verndandi þáttur fyrir sálræna og líkamlega heilsu. Það hafa jafnframt verið rannsakaðar aðferðir og æfingar sem rækta með okkur jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir og kallast þær jákvæð inngrip. Dæmi um jákvæð inngrip sem geta stuðlað að vellíðan í móðurhlutverkinu eru meðal annars; greina styrkleika sína og nota þá í uppeldinu, þakklætisæfingar, þrír góðir hlutir, núvitund og hreyfing.

Styrkleikar eru eitt af aðal viðfangsefnum jákvæðrar sálfræði. Styrkleikar einkenna hvern og einn einstakling. Það eru eiginleikar sem geta orðið breytilegir eftir aðstæðum og hægt að styrkja með því að veita þeim athygli og þjálfa. Hægt er að greina styrkleika sína t.d með VIA-styrkleikaprófi sem er á heimasíðunni www.viacharacter.org. Það er hægt að nota styrkleika með skemmtilegum og uppbyggjandi hætti í uppeldinu sem um leið getur aukið vellíðan móður og því haft bein áhrif á hamingju barnanna. Dæmi um hvernig hægt er að nota styrkleika foreldris í uppeldi er til dæmis að nota húmor, þá er meðal annars hægt að setja fyndinn miða í skólastöskuna hjá barninu eða senda því skemmtileg skilaboð á meðan það er úti með vinunum. Einnig er hægt að leggja áherslu á styrkleika barnsins sem getur leitt til frekari lífsánægju og um leið dregið úr stressi og kvíða í daglegu lífi. Niðurstöður úr rannsókn Lea Waters og Jessie Sun (2017) sýna að styrkleikamiðaðar aðferðir hafi áhrif á vellíðan en þær sýndu að foreldrar sem þekktu styrkleika sína og barna sinna voru með meiri trú á sér í uppeldinu og fundu fyrir fleiri jákvæðum tilfinningum í garð barnanna.

Þakklætisæfingar felast í því að vera þakklátur fyrir það sem lífið hefur uppá að bjóða. Það er stundum flóknara en maður heldur að finna fyrir þakklæti en rannsóknir hafa sýnt að þakklæti hefur jákvæð áhrif á vellíðan, heilsu, svefn og sambönd við aðra. Þakklætisæfingar geta verið ýmiskonar en þá má helst nefna að skrifa þakklætisbréf, fara í þakklætisheimsóknir eða einfaldlega skrifa niður þrjá hluti sem gerðust yfir daginn sem maður er þakklátur fyrir. Oft eru þetta einstaklingsæfingar en ef fjölskyldan gerir þetta saman, getur það haft jákvæð áhrif á fjölskylduna og barnið getur upplifað að kröfurnar sem eru settar á það eru heilbrigðar og raunhæfar.

Þrír góðir hlutir er æfing sem eflir jákvæðar tilfinningar og er tilvalin til þess að læra að taka eftir þeim góðu hlutum sem gerast hjá okkur hverjum degi. Æfingin felst í því að finna þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn, skrifa þá niður, segja frá hvað olli þeim og hver þáttur manns var í þeim. Æfingin hefur þau áhrif að við förum að að setja athyglina meðvitað á það jákvæða sem gerist í daglegu lífi.

Núvitund er ástand þar sem athygli er haldið í núinu á virkan og opinn hátt. Núvitund byggir á því að vera meðvitaður um líðandi stund og meðvitaður um eigin hugsanir, án þess að gagnrýna þær eða gera væntingar til þeirra. Athyglinni er beint að hugsunum, líkamanum og umhverfinu í líðandi stundu og getur það leitt til betri sjálfsvitundar. Með því að geranúvitundaræfingar þjálfum við athyglina og aukum meðvitund okkar um það sem er að gerast innra með okkur og umhverfis okkur. Þær geta einnig haft jákvæð áhrif á vellíðan og því hjálpað til við að við séum til til staðar fyrir börnin okkar. Við hlustum með vakandi athygli þegar þau tala og það verða jákvæð samskipti þarna á milli.

Hreyfing er mjög mikilvæg en hún hefur áhrif á jákvæðar tilfinningar og getur því haft jákvæð áhrif á samband móður og barns. Það er mikilvægt að finna hreyfingu sem veitir okkur ánægju og sem hentar hverjum og einum því þannig eru meiri líkur á að við hreyfum okkur sem oftast og það eykur um leið líkamlega og andlega vellíðan okkar.

Þetta eru án efa allt aðferðir sem geta hjálpað til við að styrkja og hvetja til jákvæðra samskipta á milli móður og barns. Því ekki að prófa þessar aðferðir og sjá hvort að aðferðir jákvæðrar sálfræði geti haft góð áhrif á þig og samband þitt við barnið þitt?

Gangi þér vel!

Til þín kæra mamma!

Til þín kæra mamma!

Ertu að reyna að fóta þig í móðurhlutverkinu og jafnvel að upplifa að það er ekki nákvæmlega eins og þú hélst?

Hefur þú pælt í því að kannski þarftu að aðlaga móðurhlutverkið að ÞÉR?

Það eru miklar kröfur á þér og mörg verkefni sem krefjast athygli þína. Þú ert að sjá um heimili, ala upp barn/börn, vinna, hreyfa þig, kaupa inn og reyna að eiga félagslíf… og svo margt fleira.

Að vera mamma er svo sannarlega gefandi, yndislegt og best 😍

EN það er heldur ekki auðvelt, einfalt og endalaus hlátur.

Þetta er oft bara sjúklega erfitt og það má segja það UPPHÁTT!

Við erum bara oft á sjálfstýringu -að gera og græja!

Ég vil taka það fram að ég veit að pabbarnir gera heilan helling – en núna erum við bara að tala um þig kæra mamma☺️

Ég veit að við mömmurnar getum stundum týnt okkur í þessu hlutverki og gleymt því í stutta stund hverjar við erum í raun og veru.

Auðvitað breytist lífið við það að eignast kraftaverkin okkar en við erum samt ennþá sama manneskjan.

Við höfum okkar drauma, markmið og væntingar og stundum þarf að minna okkur á það.

En við getum líka gleymt okkur í móðurhlutverkinu og farið að bera okkur saman við aðrar konur.

Erum við ekki allar sekar um það að liggja upp í sófa og taka góðan Instagram hring og bera okkur saman við þær sem hafa ,,allt á hreinu”?

Ég er allavega að gera það☺️

Sumar mömmur eru bara með skipulagið upp á tíu, svefnherbergi barnanna tipp topp og þvottahúsið alltaf tilbúið í myndatöku fyrir Hús og Híbýli!

Og það er bara frábært ÞVÍ þá er þeirra styrkleiki-SKIPULAG!

Svo eru aðrar sem virðast vera með 58 tíma í sólarhringnum og ná að taka til, þvo þvottinn, kaupa inn, hreyfa sig, detta í kaffi með vinkonum og svo horfa á einn þátt- og það áður en þær sækja börnin á leikskólann.

Enn og aftur frábært ÞVÍ þeirra styrkleiki er TÍMASTJÓRNUN!
Við erum allar með styrkleika en þeir eru mismunandi-sem betur fer.

Við verðum að muna að við erum ekki eins og erum jafn ólíkar og við erum margar.

Þá er komið að þér-hverjir eru þínir styrkleikar?

Veistu það?

EF ekki þá er svo auðvelt að komast að því.

Þú ferð einfaldlega inn viacharacter.org og tekur styrkleikaprófið þar.

Voila-þú ert komin með topp 5 styrkleikana þína og getur lesið um hvað hver og einn felur í sér.

Prófaðu svo að nota meðvitað einn styrkleika í einn dag og svo koll af kolli👏

Prófaðu að nota styrkleikana í móðurhlutverkinu og ég lofa þér að þú munt dafna í því hlutverki- þú ert einfaldlega frábær eins og þú ert!

Einn styrkleiki á dag-kemur skapinu í lag 😊

Njóttu!