Þvottahús = líðan

Þvottahús = líðan

Elsku mömmur!

Hafiði pælt í því að það eru tengsl á milli líðan ykkar og þvottahússins?

Nei ekki ég heldur, þangað til í morgun!
Ég átti gott spjall við vinkonu mína þar sem við vorum að ræða um móðurhlutverkið og líðan. Við vorum báðar sammála um að stundum orkar maður hreinlega ekki að fara inn í þvottahús. Við þurfum að peppa okkur upp í þetta blessaða herbergi og stundum er þetta bara of mikið!
Það getur verið hreinlega margra daga þvottur sem flæðir uppúr körfunum og teygir anga sína út um bókstaflega allt. Gólfið er undirlagt af þvotti og sama hvað þá nær maður ekki utan um þennan blessaða þvott😅

Markmiðið er ein vél á dag (hjá mér allavega) og ef við erum heppnar þá nær maður að ganga frá þvottinum EN að sama skapi bætist þvottur í tvær vélar ofan í þvottakörfuna. Börnin mín eru allavega mjög dugleg að hjálpa mér að fylla í körfuna.

Við vinkonurnar komumst að því að ef við erum ekki í jafnvægi og ekki búnar að hlúa að okkur sjálfum þá fer þvottahúsið í rugl og orkan er ekki til staðar til að byrja þar inni. En ef við erum í góðu jafnvægi og líður vel þá er þvottahúsið í röð og reglu og við njótum þess að vera þarna inni. Þá er voða gott að setja góða tónlist í eyrun og gleyma stund og stað.

Er einhver að tengja?

Þá kemur að samlíkingunni:

Til að taka þvottahúsið í gegn er best á að byrja á litlum markmiðum til að ná stóra markmiðinu!
Með því að þvo eina vél og ganga frá þeim þvotti beint í skápana er hægt að fara í að þvo næstu vél.
Ekki ætla okkur of mikið því annars er hreinn þvottur útum allt og við förum í að þvo það sem var kannski bara hreint fyrir ( hef gert það nokkrum sinnum).

Skiljiði hvað ég er að meina?

Semsagt til að ná góðum árangri og auka vellíðan okkar þurfum við að setja okkur markmið og þurfum við oft að búta þau niður í smærri markmið.
Þannig getum við forgangsraðað og sett markmiðin okkar upp í rétt skref og því verður auðveldara að fylgja þeim eftir.
Þegar við náum markmiðum okkar fyllumst við ánægju og það hvetur okkur í að halda áfram að setja okkur markmið!

Mundu bara að hvert skref (þvottavél) telur!

p.s það er allt í lagi að sleppa einni vél í dag en þú getur þá alltaf sett í tvær vélar á morgun.

Að njóta

Að njóta

Elsku þú!

Hvernig var morguninn? Gekk vel að koma öllum börnunum út í daginn og situru núna með rjúkandi kaffibollann og brosir út í eitt? Eða var morguninn frekar trylltur, allir fóru öfugu megin frammúr rúminu og þú fannst ekki neitt sem þú varst að leita að?

Ég er með frábært verkfæri fyrir þig sem hjálpar þér í gegnum morguninn og fær þig til að brosa þrátt fyrir að krakkarnir eru í sitthvorum sokknum og vaskurinn er fullur af leirtaui frá því í gær.

Það er svo einfalt og kallast að njóta (e. savoring).

Hvað felst í því?

Að njóta þýðir að við erum að hugsa meðvitað um eða gera hluti sem auka jákvæðu áhrifin af jákvæðum atburðum (Reivich og Saltzberg, 2013). Það þýðir að við reynum að finna til fulls, njóta og lengja jákvæða reynslu okkar.

Að njóta felur í sér meðal annars;

•Að hlakka til

•Njóta og varðveita augnablikið

•Rifja upp góðar stundir

Að njóta er frábær leið til að þróa langvarandi straum jákvæðra hugsana og tilfinninga og eykur um leið hamingju okkar!

Svona til að rökstyðja þetta allt saman þá komust vinirnir Bryant, Smart og King (2005) að því oftar sem maður rifjar upp jákvæða atburði, verður minningin skýrari og hefur því sterkari áhrif á hamingjuna!

Og svona til að bæta því við þá var önnur rannsókn sem sýndi að því oftar sem við gleðjumst yfir jákvæðum atburðum hversdagsins, því hamingusamari erum við (Jose, Lim og Bryant, 2012).

Þakklæti er tengt því að njóta og eykur það jákvæðar tilfinningar okkar. Ég mæli eindregið með því að gera þakklætisæfingar á hverjum degi!

Dæmi um þakklætisæfingar:

•Þakklætisbréf

•Þakklætisheimsókn

•Þrír góðir hlutir

Eigðu yndislegan dag og umfram allt skaltu NJÓTA ❤